Skip to main content

STEFNAN OKKAR

Fagmennska, virðing, samstaða

Við á Grænu stofunni erum stolt af því að vera fyrsta umhverfisvottaða hárstofan á Íslandi

Allt okkar starf miðast við að vera umhverfis- og mannvænt. Við veljum aðeins hreinustu vörur sem völ er á, hvort sem við seljum þær í versluninni okkar eða notum á stofunni.

Eitt af okkar aðalgildum er virðing; við berum virðingu fyrir umhverfinu okkar, við gætum þess að ganga ekki á vistkerfi jarðar og allt sem við notum og gerum skilar sér til baka á eins skaðlausan máta og kostur er á.

Við berum virðingu fyrir öllum manneskjum, áttum okkur á því við erum alls konar, höfum ólíkar þarfir og eigum öll rétt á því að komið sé fram við okkur af nærgætni og alúð.

Starfs- og siðareglur Grænu stofunnar

  • Við leggjum okkur fram um að skapa og viðhalda starfsumhverfi sem einkennist af heiðarleika og góðu siðferði. Við sinnum öllum okkar verkum af heiðarleika og heilum hug og stuðlum að því með virkum hætti að annað fólk geri slíkt hið sama.
  • Við tökum ábyrgð á afleiðingum starfa okkar fyrir samfélag, umhverfi og náttúru. Við höfum sjálfbærni að leiðarljósi, forðumst sóun og leitumst við að lágmarka neikvæð áhrif starfsins á umhverfi og náttúru.
  • Við leggjum okkur fram um að styðja og efla menningu sem byggir á jafnrétti, fjölbreytileika og gagnkvæmri virðingu. Við tökum ekki með nokkrum hætti þátt í einelti, áreitni eða öðru ofbeldi og erum á varðbergi gagnvart slíkri háttsemi.
  • Við leggjum okkur fram um að veita viðskiptavinum og öðrum sem til okkar leita faglega og góða þjónustu án manngreinarálits. Við höfum hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi við veitingu ráðgjafar og þjónustu.
  • Við gætum þess að upplýsingar sem við veitum séu eins réttar og nákvæmar og kostur er. Við fullyrðum ekki meira en vitneskja okkar gefur tilefni til hverju sinni, heldur öflum við okkur upplýsinga og/eða vísum fyrirspurnum til viðeigandi aðila.
  • Við gætum þess að fara vel með fjármuni og önnur verðmæti sem okkur er trúað fyrir eða við höfum til umráða vegna starfs okkar og aðstæðna og notum þau ekki í eigin þágu.
  • Við gætum fyllsta trúnaðar um persónuleg málefni viðskiptavina okkar og samstarfsfólks og  gætum varúðar hvar og hvenær sem málefni samstarfsfólks og viðskiptavina eru til umræðu.
  • Við virðum einstaklingsrétt samstarfsfólks okkar og viðskiptavina og sýnum hvert öðru háttvísi í framkomu, ræðu og riti. Við vinnum saman af heilindum, virðum skoðanir hvers annars og sýnum hvert öðru umburðarlyndi. Við gætum þess að vera málefnaleg og sanngjörn í umsögnum, endurgjöf og ummælum um annað fólk.
  • Við förum með persónuupplýsingar af varfærni og virðum persónuverndarreglur er gilda um notkun og geymslu netfanga, símanúmera og annarra skráðra persónuupplýsinga viðskiptavina.
  • Við gætum þess að taka hagsmuni heildarinnar fram yfir sérhagsmuni varðandi þætti er viðkoma Grænu stofunni þegar við erum starfandi og stödd á stofunni.
  • Við störfum ekki undir nokkrum kringumstæðum undir áhrifum áfengis eða annarra hugbreytandi efna.
  • Við virðum í hvívetna reglur og viðmið um siðferði og vönduð vinnubrögð.